Trúarkenningar félagsins og tengsl við önnur trúarbrögð, trúarhreyfingar eða aðrar lífsskoðanir eða lífsskoðunarfélög.

Trúarkenningar félagsins og tengsl við önnur trúarbrögð, trúarhreyfingar eða aðrar lífsskoðanir eða lífsskoðunarfélög.
Líkt og nafnið „Stofnun múslíma“ gefur til kynna miðast stefnuskrá og trúarkenningar félagsins við sið múslíma, íslam. Orðið „íslam“ er arabískt og merkir undirgefni eða hlýðni (við Guð) og er samstofna orðinu „salam“, sem þýðir friður. Múslími er því sá sem leggur sig fram við að lúta vilja Guðs. Trúarrit múslíma er Kóraninn og í honum kemur fram að Guð hafi sent nokkra spámenn til að kenna mannkyninu. Þar á meðal eru Adam, Nói, Abraham, Móses og Jesús en síðastur þeirra er Múhameð (friður sé með þeim öllum). Kóraninn opinberaðist Múhameð spámanni fyrir tilstilli Gabríels erkiengils.
Íslam grundvallast á fimm meginstoðum:
Trúarjátning. Múslími verður að játa enginn sé guð nema Guð (Allah á arabísku) og að Múhameð sé spámaður hans.
Bænir. Múslímar eiga að biðjast fyrir fimm sinnum á dag; stuttu fyrir sólarupprás, á miðjum morgni, á hádegi, um miðjan eftirmiðdag og eftir sólsetur.
Ölmusa. Múslímar eiga að gefa ákveðinn hluta (u.þ.b. 2,5%) af eigum sínum árlega til fátækra og hjálparþurfi.
Fasta í Ramadan-mánuðinum. Fastan felst í því að neyta hvorki matar né drykkjar frá sólarupprás til sólarlags þennan mánuð. Jafnframt halda múslímar sér frá kynlífi á þessum tíma og forðast sérhverja illa gjörð og girnd. Tilgangur föstunnar er m.a. að tileinka sér aga og öðlast samkennd og skilning með þeim sem líða skort. (Ung börn, barnshafandi konur og konur með börn á brjósti eru undanþegin föstunni.)
Pílagrímsferð til Mekka. Sérhver múslími ætti að fara einu sinni á lífsleiðinni til mekka, ef fjárhagur hans og heilsa leyfir.

Væntanlega er ítarlegri skýring á íslam óþörf þar sem um svo vel þekkt trúarbrögð er að ræða. Stofnun múslíma er sjálfstæð og óháð öðrum félögum og samtökum.

Starfsemi félagsins, svo sem reglulegt samkomuhald eða annað sem gefur til kynna að starfsemi þess sé stöðug og virk.
Stofnun múslíma er nú til húsa í Ýmishúsinu að Skógarhlíð 20 í Reykjavík. Þar geta félagsmenn komið til bæna, sem fara fram fimm sinnum á dag. Á föstudögum er meira lagt í bænir en á öðrum dögum og þá koma flestir félagsmenn saman til bænahalds, sem má að vissu leyti líkja við sunnudagsmessu að kristnum sið. Jafnframt er haldið veglega upp á tvær hátíðir á ári (Eid). Önnur hátíðin er haldin í lok föstumánaðarins, Ramadan og kallast Eid Al-Fitr en hin er fórnarhátíðin, Eid Al-Adha, þegar þess er minnst að Abraham var tilbúinn að fórna syni sínum. Á þessum hátíðum koma félagsmenn saman í húsakynnum stofnunarinnar, matast saman og haft er ofan af fyrir börnunum með leiktækjum og öðru þess háttar.
Í íslam er nafngjöf ekki trúarleg athöfn en fólk getur komið og gefið sig saman í hjónaband með trúarlegri athöfn. Fulltrúi stofnunarinnar mun sjá til þess að staðfesta slíkan gjörning fyrir yfirvöld og jafnframt votta að sáttaumleitun hafi farið fram ef til skilnaðar kemur. Stofnun múslíma tekur líka að sér hefðbundnar og trúarlegar athafnir við andlát, svo sem þrif á líki og umbúnað, samkomuhald fyrir ætttingja og vini og í húsakynnum stofnunarinnar er hægt að hafa trúarlega athöfn að lokinni greftrun.