Byggjum brýr, ekki múra

„Allt sem þú vildir vita um íslam, en þorðir ekki að spyrja“ er heiti á samkomu á vegum Vakurs, sem þegar hefur valdið töluverðum titringi. Robert Spencer, annar aðalræðumaður kvöldsins, þykir heldur einstrengingslegur og hefur verið sakaður um að boða ótta og sundrungu. Í fyrirlestrum sínum heldur hann því jafnan fram að íslam, trúarbrögð múslíma, einkennist af kúgun og yfirgangi. Hann heldur því til dæmis blákalt fram að múslímum beri að ráðast á og myrða kristna menn og gyðinga, svo ekki sé minnst á guðleysingja. Og til að sýna að hann fari ekki með fleipur vitnar hann beint í Kóraninn. Fyrsta tilvitnun hans er jafnan í 191. vers annars kafla (súru), en þar segir: „Fellið þá hvar sem þeir finnast.“ Hann getur þess ekki að versið á undan hljóðar svo: „Berjist fyrir málstað Allah gegn þeim sem á yður herja. En hefjið ekki fjandskap, því ekki eru árásarmenn Allah að skapi.“ Óneitanlega fær textinn á sig aðra merkingu í því ljósi.
Hann heldur því líka fram að múslímar vilji leggja undir sig lönd og þjóðir og neiti menn að skipta um trú þurfi þeir að sæta sérstökum skatti samkvæmt Kóraninum. Þar vitnar hann í 29. vers níunda kafla (súru), sem segir vissulega að þeir sem ræki ekki hina sönnu trú þurfi að reiða af hendi skatt. Ein af fimm stoðum íslam er ölmusan, en það er ákveðinn hluti tekna manna sem þeir láta renna til þeirra sem minna mega sín. Þannig tókst múslímum að koma á fót einskonar velferðarkerfi í ríkjum sínum. Í löndum kristinna manna, þ.á.m. Íslandi, þurftu menn, hvort sem þeim líkaði betur eða verr, að greiða kirkjunni tíund, enda var menntun og umönnun þeirra sem minna máttu sín þá á hennar könnu. Auk þess var sjaldnast boðið upp á þann möguleika í löndum kristinna fyrr á öldum að hafa aðra trú. Svo má minna á að kristnum er líka uppálagt í Nýja testamentinu að fara og gera allar þjóðið að lærisveinum (Mt. 28:19).
Eftir að hafa málað skrattann á vegginn með þessum hætti þykist Spencer svo vera óskaplega sanngjarn í garð múslíma með því að segja: „Allir skólar í íslömskum lögum kenna að múslímar eigi að segja hinum guðlausu[Ég geri ráð fyrir að hér sé um að ræða þýðingu úr ensku. Ef enska hugtakið er atheists ber að þýða það sem guðleysingjar, ekki sem trúleysingar eða trúlausir.] stríð á hendur, sigra þá og beygja undir sig. Þetta þýðir auðvitað ekki að allir múslímar geri það, ekki frekar en allir kristnir menn elska óvini sína og bjóða hina kinnina.“ En sanngirnin í svona málflutningi er vonandi flestum ljós.

Á fundinum verður líka Cristine Douglas-Williams, sem vinnur m.a. sem almannatengsla- og fjölmiðlaráðgjafi fyrir zíonistasamtökin Alþjóðlega kristna sendiráðið í Ísrael og stjórnar vikulegum sjónvarpsþáttum þeirra sem kallast „Innan Ísraels“. En hún virðist líka hafa unnið að bættum samskiptum fólks af ólíkum trúarbrögðum í Kanada og er höfundur bókar sem er að koma út með viðtölum við hófsama múslima og framámenn þeirra á Vesturlöndum sem vilja ákveðna siðbót í íslam.
Við hjá Stofnun múslíma á Íslandi fögnum því svo sannarlega ef fólk vill fræðast um íslam og þess vegna bjóðum við fyrirlesurum Vakurs, félagsmönnum hans og öllum þeim sem ætla sér að sækja fyrirlestrana að koma til okkar í Ýmishúsið í Öskjuhlíð. Það væri okkur sönn ánægja að segja frá störfum okkar, markmiðum og áherslum. Þær eru nefnilega víðs fjarri því sem Spencer heldur fram. Við eigum til dæmis í ágætu samstarfi við nokkur kristin trúfélög að þjóðkirkjunni meðtalinni og viljum frekar byggja brýr en múra. Dyr okkar standa öllum opnar.